Góður árangur við verkefnaöflun og nýsölu hafði jákvæð áhrif á niðurstöðu Ax hugbúnaðarhús hf. á þriðja ársfjórðungi segir í tilkynningu Kögunar, móðurfélags Ax, til Kauphallarinnar. Velta Ax er 15% umfram áætlanir og EBITDA hlutfall í samræmi við áætlanir. Ax hugbúnaðarhús hefur á árinu lagt í umtalsverðan þróunarkostnað við Windows væðingu á TOK bókhaldskerfinu og verður fyrsta áfanga af þremur lokið á árinu.

TOK viðskiptahugbúnaðurinn hefur samhliða því styrkt stöðu sína á markaðinum og sjá stjórnendur Ax fram á aukna markaðshlutdeild.

"Skýr markmið og gott orðspor hefur skilað Ax árangri þar sem Ax hefur skapað sér leiðandi stöðu innan orkugeirans, í viðskiptahugbúnaðinum Microsoft Axapta og stjórnendalausnum frá Cognos," segir í tilkynningu Kögunar.