Í viðtali við Ásdísi Höllu Bragadóttur, forstjóra Byko, í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að starfsemi Byko er orðin mjög umfangsmikil og á þessu ári er veltan á innanlandsmarkaði áætluð um 15 milljarðar króna.

Árið 2000 voru gerðar skipulagsbreytingar hjá Byko og tengdum fyrirtækjum. Var Byko hf. þá skipt upp í tvö sjálfstæð félög, annars vegar Byko hf. með alla starfsemi er lýtur að rekstri byggingavöruverslana, og hins vegar Norvik hf., sem varð eignarhaldsfélag samsteypunnar. Fram að því hafði Byko hf. verið bæði rekstrarfélag um rekstur byggingavöruverslana og eignarhaldsfélag, en þar undir féllu Elko ehf., Sia Byko-LAT í Lettlandi, Axent ehf. og Smáragarður ehf.

Árið 2003 keypti Norvik fyrirtækið Kaupás hf., sem var eignarhaldsfélag yfir Nóatúns-, 11-11 og Krónuverslanirnar ásamt Húsgagnahöllinni og Intersport verslununum.

Dótturfyrirtæki Norvikur hf. eru nú 14 talsins: Byko, Byko-LAT, Byko-UK, Wayland Timber, Norwood, Elko, Nóatún, Krónan, 11-11, Húsgagnahöllin, Intersport, Axent, Smáragarður og Expo.

Saga Byko hófst árið 1962 þegar fyrsta Bykoverslunin við Kársnesbraut í Kópavogi var opnuð. Nú er Byko með rekstur víða um land og starfrækir 8 byggingavöruverslanir, timbursölur, leigumarkaði og lagnadeildir. Með tilkomu nýja húsnæðisins er heildargólfflötur Byko í Breiddinni um 20 þúsund fermetrar.

Undir rekstur Byko heyra einnig fyrirtækin ELKO, Húsgagnahöllin og Intersport. Á síðari árum hefur Byko haslað sér völl erlendis, meðal annars með uppbyggingu á öflugu timburfyrirtæki í Lettlandi. Þar er unnið timbur og timburafurðir auk þess framleiðir verksmiðjan glugga og hurðir úr timbri, svo og álklædda timburglugga. Byko er rekið sem sjálfstæð eining og undir það heyrir allt sem við skilgreinum smásölustarfsemi fyrir utan matvöruverslanir. Auk starfseminnar hér heima falla undir Byko vöruhús í Evrópu og innkaupaskrifstofa í Kína. Einnig mun rekstur Depo verslananna í Lettlandi verða tengdari Byko en þar hafa nú verið opnaðar tvær verslanir og undirbúningur hinnar þriðju vel á veg kominn. Norvik er reyndar formlegur eignaraðili að þessum verslunum svo ég hef ekki haft mikil dagleg afskipti af þeim ennþá. Við munum hins vegar reyna að samnýta betur okkar krafta í stjórnun og innkaupum. Ég er þó búin að fara og hitta þetta fólk og fara í gegnum rekstur þeirra verslana með stjórnendum úr hópi heimamanna.

Undir alþjóðasvið Norvikur heyrir annað en smásalan sjálf, eins og timburframleiðsla, timburheildsala og ýmislegt í þá veru.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.