Velta Creditinfo Group Ltd., móðurfélags Lánstrausts hf., jókst um 40% á síðasta ári og nam 16,5 milljónum evra, eða ríflega 1,4 milljörðum króna. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að veltan aukist um 25% á þessu ári og verði 22 milljónir evra, eða tæplega tveir milljarðar króna.

Að sögn Reynis Grétarssonar, forstjóra Creditinfo, var tap af rekstrinum á árinu 2006, en mikil áhersla hefur verið lögð á að fara inn á nýja markaði og þróa vöru.  "Á þessu hefur nú hægt, til dæmis gerum við ekki ráð fyrir að fara í nein ný lönd í ár," sagði Reynir, en félagið starfar nú í 25 löndum. Gert er ráð fyrir rekstrarhagnaði upp á um 10% af veltu á þessu ári.

Creditinfo Group keypti 25% hlut í fyrirtækinu Zvilgnis Is Arciau í Litháen í lok síðasta árs og á nú allt hlutafé félagsins. Velta félagsins drógst saman um 3% á síðasta ári en að sögn Reynis var það einkum vegna tilflutnings verkafna yfir til annars félags á þeirra vegum. Velta þess félags jókst um 200%.

Creditinfo Group er nú með starfsemi í fjölda landa, einkum í Mið- og Austur-Evrópu. Starfsmenn félagsins eru 450, þar af um 60 á Íslandi. Ríflega 60% af tekjum félagsins koma erlendis frá. Þess má geta að Creditinfo Group er í þriðja skipti í röð á lista yfir þau evrópsku fyrirtæki sem eru mest vaxandi og atvinnuskapandi, samkvæmt úttekt tímaritsins Europes 500.

Þann 31. janúar síðastliðin voru 10 ár frá stofnun Lánstrausts.