Velta dagvöruverslana var um 12,3% meiri í mars en í sama mánuði árið 2004, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, samkvæmt nýjustu mælingu Rannsóknaseturs verslunarinnar. Áfengissmásalan á föstu verðlagi reyndist hvorki meira né minna en 22,9% meiri en á sama tímabili í fyrra. Velta lyfjaverslana dróst hins vegar saman um 2,9% á föstu verðlagi. Verðhækkanir frá mars 2004 til sama mánaðar 2005 reyndust vera 0,2% í dagvöru, 1,0% í áfengi og 3,6% í lyfjasmásölu.

Gríðarmikil velta í dagvöru- og áfengisverslun síðastliðin mánuð, samanborið við sama mánuð árið áður, skýrist fyrst og fremst af snemmbúinni páskahátíð. Samkvæmt lauslegri úttekt RSV skýrir tímasetning páska um tvo þriðju hluta hækkunar vísitölu dagvöru og um þrjá fjórðu hluta hækkunar áfengisvísitölu. Að teknu tilliti til páskaáhrifanna virðist áfram vera svipaður raunvöxtur í verslun með dagvöru og áfengi og verið hefur undanfarna mánuði, eða um og yfir fjögur prósent á ársgrundvelli.

Áfram er veltuaukningin langmest hjá lágvöruverðsverslunum. Verðstríðið er hófst í lok febrúarmánaðar hefur dregist nokkuð á langinn og afleiðingar þess eru, meðal annars, verulega aukinn hluti lágvöruverðsverslana í heildarveltu.

Ekki er hægt að greina marktæk áhrif tímasetningar páska á veltu lyfjaverslana.

Velta lyfjaverslana stendur nokkurn vegin í staða á milli ára, á hlaupandi verðlagi, en nokkur samdráttur virðist hafa verið síðastliðið ár ef tekið er tillit til hækkunar verðlags lyfja og lækningarvara segir í frétt Rannsóknaseturs verslunarinnar.