Hagnaður Dressman á Íslandi ehf. fyrir árið 2020 nam sex milljónum króna og dregst töluvert saman frá árinu áður þegar að hagnaður var tæpar 37 milljónir.

Velta félagsins var um 546 milljónir á árinu en hún dregst saman um 4,4% á milli ára. Rekstrargjöld félagsins á síðasta ári námu 537 milljónum en voru 531 milljón árið áður. Þrátt fyrir að rekstrargjöld hafi hækkað dróst launakostnaður saman um 12,7% á milli ára úr 134 milljónum í 117 milljónir. Þá var stöðugildum fækkað úr 13 í 11.

Eignir félagsins námu 313 milljónum í lok árs og lækka um 30 milljónir á milli áranna 2020 og 2019. Eigið fé var 249 milljónir í lok árs og eiginfjárhlutfall því um 79,6%. Handbært fé í lok árs 2020 var 211 milljónir en það var 188 milljónir árið áður.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að helstu áhrif Dressman af heimsfaraldrinum voru þau að velta félagsins dróst saman um 42 milljónir í mars og apríl á síðasta ári samanborið við árið áður. Eigendur félagsins eru norsku bræðurnir Petter Varner, Joakim Varner og Stein Marius Varner sem eiga allir sitthvorn þriðjungshlutinn.