Dufland ehf., heildsala sem flytur meðal annars inn nikótínpúðana Lyft og Loop, hagnaðist um 65,3 milljónir króna eftir skatta á árinu 2020. Er það tífalt betri afkoma en árið á undan, enda hóf félagið ekki starfsemi fyrr en seint það ár.

Rekstrartekjur námu 404,5 milljónum króna en rekstrargjöld 323 milljónum. Fastafjármunir í árslok voru engir en aðrar eignir metnar á 112 milljónir. Þar af voru birgðir 73,2 milljónir, viðskiptakröfur 23,8 milljónir og handbært fé 13,4 milljónir. Skuldir eru allar til skamms tíma, en þær námu 40 milljónum. Eigið fé er 72 milljónir.

Sjá einnig: Nikótínpúðar til höfuðs bagginu

Auk nikótínpúða býður Dufland m.a. upp á sælgæti, kaffi, tyggjó, snyrtivörur og fæðubótarefni. Í dag er heildsalan með um 300 vörunúmer þar af er um helmingur vörunúmera fyrir nikótínpúða.

Ekki kemur fram í ársreikningi hvort félagið muni greiða út arð til hluthafa en ársreikningi var skilað gegnum Hnappinn. Hlutafé félagsins er í jafnri eigu feðganna Guðmundar Bjarnasonar, Bjarna Freys Guðmundssonar og Víðis Arnar Guðmundssonar.

Leiðrétt: Upphaflega fyrirsögnin á fréttinni var „404 milljóna sala nikótínpoka“. Rétt er þó að 404,5 milljóna króna rekstrartekjur ná einnig utan um aðra vöruflokka sem Dufland býður upp.