Samkvæmt hálfsársuppgjöri sem Eimskipafélag Íslands birtir á vef Kauphallar Íslands í dag er hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) 1.532 milljónir króna sem er 402 milljónum króna betri afkoma en á sama tímabili 2004. Afkomubati félagsins er rekinn til þeirra umbreytinga sem farið var í á síðasta ári, s.s. akstur innanlands í stað strandsiglinga og hagræðingar í stjórnskipulagi.

Einnig er aukin afkoma rakin til mun meira flutningsmagns á árinu 2005, bæði miðað við áætlanir og árið 2004. Ytri aðstæður eins og mjög hátt olíuverð og óhagstætt gengi, hafa hins vegar dregið úr afkomubatanum.

Hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 1.532 milljónum króna samanborið við 1.130 milljónir árið áður, eða aukning um 402 milljónir. EBITDA hagnaður nam 11% af veltu á árinu 2005 en var 9% af veltu árið á undan. Afskriftir voru 780 milljónir króna.

Fjármagnsliður í rekstrarreikningi var neikvæður um 299 milljónir króna. Skattar námu 102 milljónum króna sem gefur hagnað til hækkunar á eigin fé að fjárhæð 357 milljónum króna fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Veltufé frá rekstri nam 1.016 milljónum króna.

Velta félagsins hefur aukist um rúmar 2.000 milljónir samanborið við fyrstu sex mánuði 2004, sem skýrist með tilkomu veltu Faroe Ship í Færeyjum og Eimskip China, ásamt fleiri verkefnum erlendis. Heildareignir í lok júní sl. námu 22,9 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var 30,4% og veltufjárhlufall 1,37.

Gert er ráð fyrir að afkoma félagsins verði góð á yfirstandandi ári þrátt fyrir stórt tjón í ársbyrjun og eru horfur fyrir árið 2005 um 3.300 milljónir króna í EBITDA framlegð.