Undirliggjandi starfsemi Eimskips skilaði um 900 milljónum króna (9,4 milljónum evra) hagnaði á síðasta rekstrarári. Hins vegar dregur flugrekstur félagsins afkomu þess verulega niður en heildartap af flugrekstrinum var um 1,8 milljarður króna (18,5 milljónir evra). Eimskip hefur nú selt allan flugrekstur sinn og mun það létta á rekstri félagsins enda hefur hann haft neikvæð áhrif á reksturinn undanfarin ár.  Að teknu tilliti til flugrekstrarins er heildartap samstæðunnar eftir skatta á árinu 865 milljónir króna (9,1 milljón evra).

Í tilkynningu frá Eimskip segir að heildarvelta félagsins á árinu hafi verið 139 milljarðar króna (1.459 milljónir evra) en var um 48 milljarðar króna (500 milljónir evra) á síðasta ári, og hefur því þrefaldast á milli ára. Heildargjöld félagsins námu 130 milljörðum króna (1.372 milljónir evra). EBITDA samstæðunnar var um 13 milljarðar króna (136,5 milljónir evra) á tímabilinu eða um 9% af heildartekjum félagsins. Á árinu 2006 var EBITDA félagsins hins vegar um 6%.

Heildareignir félagsins í lok ársins voru um 235 milljarðar króna (2.469 milljónir evra). Eigið fé félagsins var um 43 milljarðar króna (451 milljón evra) í lok rekstrarársins. Veltufé frá rekstri var á tímabilinu 3,9 milljarðar króna  (41 milljón evra) og veltufjárhlutfall félagsins var 1,0.

Í tilkynningunni er haft eftir Baldri Guðnasyni: forstjóra Hf. Eimskipafélags Íslands:

“Núverandi starfsemi Eimskips skilar um 900 milljónum króna (9,4 milljónum evra) í hagnað á árinu og er í takt við áætlanir. Afkoma af undirliggjandi starfsemi Eimskips stóðst væntingar stjórnenda en tap Air Atlanta, sem var um 1,8 milljarði króna (18,5 milljónir evra), leiðir til þess að samstæðan í heild skilar 865 milljóna króna (9,1 milljón evra) tapi eftir skatta. Ljóst er að flugreksturinn hefur haft neikvæð áhrif á afkomu félagsins undanfarin ár. Eimskip hefur nú selt alla flugrekstrartengda starfsemi og mun það létta á rekstri félagsins. Því má gera ráð fyrir bættri afkomu í framtíðinni.

Vegna kaupa á félögum og þreföldunar á veltu hefur árið einkennst af miklum vexti. Mikil vinna hefur verið lögð í endurskipulagningu og samþættingu rekstrareininga og þeim aðgerðum hefur fylgt kostnaðaraukning til skamms tíma. Þessar hagræðingaraðgerðir koma hins vegar til með að skila bættri afkomu á árinu 2008 og áfram verður unnið að þeim auk frekari samþættingar á rekstrareiningum.

Á árinu voru skipafélögin Containerships og Kursiu Linija sameinuð undir nafni Containerships. Flutningsgeta var aukin með tilkomu nýrra og stærri skipa, skipum var fækkað, skrifstofur voru sameinaðar og starfsfólki fækkað.

Eimskip tók yfir rekstur Atlas og Versacold á árinu. Unnið hefur verið markvisst að samþættingu og hagræðingu innan félaganna, sem mun skila sér í betri afkomu á árinu 2008. Stjórnendateymi félaganna hafa verið sameinuð, höfuðstöðvum Atlas í Toronto var lokað, starfsfólki fækkað og dregið hefur úr öðrum kostnaði.

Samfara kaupunum jókst skuldsetning félagsins, til skamms tíma. Ákveðið var að auka ekki hlutafé vegna þessara kaupa heldur að selja fasteignir félaganna í Norður Ameríku. Sölu eigna að andvirði um 500 milljónir evra er lokið. Á öðrum ársfjórðungi 2008 er stefnt að því að ljúka sölu á fasteignum að verðmæti um 700 milljóna evra.  Að því loknu er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall félagsins verði um 25%.

Við lítum á 2008 sem nýtt upphaf í sögu Eimskips þar sem stöðugt og vel rekið félag lítur nú dagsins ljós. Eimskip mun nú einbeita sér enn frekar að flutninga- og vöruhúsastarfsemi þar sem félagið hefur náð forskoti á alþjóðavísu. Rekstur félagsins er mjög vel dreifður milli helstu markaða félagsins sem eru: Ísland og Norður Atlantshaf, Norður Ameríka, Evrópa, Eystrasaltssvæðið og Rússland og Asía.”