Talsverð velta var á fasteignamarkaði vikuna 21.-27. nóvember. Samtals voru gerðir 167 kaupsamningar sem hljóðuðu samtals upp á 4.634 milljónir króna. Þetta kemur fram í Markaðsfréttum Þjóðskrár Íslands.

Flestir voru samningarnir á höfuðborgarsvæðinu, eða 135 talsins þar sem veltan var 4.634 milljónir. Þá voru gerðir 13 samningar á Akureyri sem hljóðuðu samtals upp á 340 milljónir. Á Árborgarsvæðinu voru gerðir fimm samningar og veltan á fasteignamarkaði þar 69 milljónir. Á Suðurnesjum var veltan 278 milljónir í 14 samningum.

Í Hagsjá Landsbankans frá því fyrir helgi var því spáð að fasteignaverð muni hækka um 25% fram til ársins 2017.