Á háannatíma ferðaþjónustu í landinu, frá júlí til og með ágúst, nam velta í greinum sem eru einkennandi fyrir ferðaþjónustu um 68 milljörðum króna, sem er 61% lækkun frá sama tíma fyrir ári þegar hún var 149 milljarðar króna, að því er Hagstofa Íslands hefur tekið saman upp úr virðisaukaskattskýrslum.

Þar af lækkaði veltan af farþegaflutningum með flugi um 68%, úr 52,2 milljörðum í 17 milljarða, samdrátturinn í rekstri gististaða nam 64%, úr 28,2 milljörðum í 10,1 milljarð, lækkun veitingasala og -þjónusta nam 24%, úr 20,3 milljörðum í 15,4 milljarða, bílaleigur lækkuðu um 30%, úr 12,1 milljarði króna í 8,5 milljarða króna. Lækkunin fyrir síðustu 12 mánuði nemur 38%.

Í október var fjöldi gistinátta 37 þúsund samkvæmt áætluðum tölum stofnunarinnar, sem er 91% fækkun frá sama mánuði í fyrra. Þar af er áætlað að gistinætur Íslendinga hafi verið 26 þúsund, sem er fækkun um 35%, meðan gistinætur erlendra aðila hafi verið 11 þúsund sem er 97% fækkun milli ára.

42% fækkun var meðal þeirra sem starfa í greinum sem eru einkennandi í ferðaþjónustu milli áranna í mánuðinum, eða úr rúmlega 29 þúsund manns í 17 þúsund manns.