Velta á gjaldeyrismarkaði var 17,2 milljarða króna í maí í samanburði við 12,4 milljarða veltu í apríl. Hlutdeild Seðlabankans í veltu mánaðarins var 2 milljarðar króna eða um 12%. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans.

Raungengið í apríl var 10,6% lægra en í apríl 2018. Nafngengið var 11,5% veikara.

„Eftir að hafa styrkst nokkuð fyrstu dagana í apríl hefur íslenska krónan gefið eftir, jafnt og þétt. Í lok dags í gær (4. júní) stóð evran í 139,4 sem er 4,5% hærra en lægsta dagslokagildið fyrstu vikuna í apríl (133,45). Seðlabankinn seldi 15 m.evrur á móti veikingunni 22. og 23. maí en hefur að öðru leyti haldið sig á hliðarlínunni. Frá áramótum hefur íslenska krónan veikst gagnvart gjaldmiðlum öllum helsta viðskiptalanda okkar, að sænsku krónunni undanskildri," segir í Hagsjánni.