Á næsta ári er áætlað að velta Heimsferða og dótturfélaga verði um 20 milljarðar króna. Eftir kaup á fjórum ferðaskrifstofum á síðustu þremur árum eru Heimsferðir orðnar að fjórðu stærstu ferðaskrifstofu Norðurlanda og um leið ein sú arðsamasta í Evrópu. Í viðtali við Andra Má Ingólfsson, stofnanda, forstjóra og einkaeiganda Heimsferða, í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að hann væntir áframhaldandi veltuaukningar hjá félaginu næstu árin en fram undan er að setja félagið upp sem samsteypu undir einum hatti. Að sögn Andra er vel mögulegt að félagið hreiðri um sig í Finnlandi og þá er verið að skoða möguleika á að fara út í flugrekstur.

Heimsferðir eru í dag stærsta sjálfstæða ferðaskrifstofusamsteypan í einkaeigu á Norðurlöndunum. Félagið mun flytja 400.000 farþega á næsta ári til vel á þriðja tug áfangastaða.

Sjá ítarlegt viðtal við Andra Má í Viðskiptablaðinu í dag.