Heildarviðskipti með hlutabréf í febrúarmánuði námu 53,4 milljörðum eða 2,5 milljörðum á dag. Það er 12% lækkun frá fyrri mánuði, en í janúar námu viðskipti með hlutabréf 2,8 milljörðum króna á dag. Þetta er 48% hækkun á milli ára, þar sem viðskipti í febrúar 2015 námu 1.721 milljón á dag.

Mest voru viðskipti með bréf Icelandair Group, eða 18,5 milljarðar. Þá var velta með bréf Marel rúmlega 7,4 milljarðar, og velta með bréf N1 4,3 milljarðar.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Landsbankinn með mestu hlutdeildina eða 27,3%, Arion banki með 21,5% og Kvika banki með 20,2%.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu hins vegar 108 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 5,1 milljarðs veltu á dag. Þetta er 32% lækkun frá fyrri mánuði, en viðskipti í janúar námu 7,5 milljörðum á dag. Þá er það einnig 35% lækkun frá fyrra ári, þegar viðskipti í febrúar námu 7,8 milljörðum á dag

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 83,3 milljörðum, en viðskipti með bankabréf námu 10,7 milljörðum og viðskipti með íbúðabréf námu 9,1 milljarði. Mest voru viðskipti með RIKB 20 0205 en þau námu 16,6 milljörðum.