Velta hugbúnaðarfyrirtækja á Íslandi var 27.716 milljónir króna árið 2005 miðað við 25.307 milljónir króna árið 2004 framreiknað á verðlag ársins 2005 og er því um 10% ársaukningu að ræða. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Seðlabankans.

Könnun bankans sýnir veltu fyrirtækja í hugbúnaðariðnaði í samanburði við veltu annarra atvinnugreina samkvæmt virðisaukaskattskýrslum yfir tímabilið 1990-2005. Ársvelta hjá hugbúnaðarfyrirtækjum lækkaði árin 2002 og 2003 en tók að hækka aftur árið 2004.

Velta hugbúnaðarfyrirtækja hefur 20 faldast að raungildi síðastliðin 16 ár segir í skýrslunni. Á sama tíma tvöfaldaðist velta annarra atvinnugreina að raungildi. Veltuaukning var mun meiri hjá hugbúnaðarfyrirtækjum miðað við aðrar atvinnugreinar á tímabilinu 1991-2001 en síðastliðin fjögur ár hefur veltuaukning verið svipuð. Veltan jókst að meðaltali um 34% á tímabilinu 1991-2001 miðað við 4% aukningu hjá öðrum atvinnugreinum. Á tímabilinu 2002-2005 var um 5% veltuaukningu að ræða að meðaltali hjá hugbúnaðarfyrirtækjum og öðrum atvinnuvegum.