Velta í dagvöruverslun dróst saman um 6,8% á föstu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð árið áður. Velta í dagvöruverslun hefur því ekki verið minni frá því í byrjun árs 2007 að raunvirði þó neytendur verji mun fleiri krónum til innkaupanna en áður.

Þetta kemur fram í mánaðarlegri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.

Þar kemur fram að velta dagvöru jókst á breytilegu verðlagi um 23,1% á einu ári. Þá kemur fram að í janúar síðastliðnum voru fimm helgar en fjórar í janúar í fyrra sem hefði átt að leiða til aukinnar sölu en raunin varð samdráttur.

Verð á dagvöru hækkaði um 32% á einu ári, frá janúar 2008 til janúar 2009.

Í skýrslu Rannsóknarseturs kemur fram að sala á áfengi jókst hins vegar um 2,2% í janúar miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og um37,6% á breytilegu verðlagi.

Verð á áfengi hækkaði um 34.6% í janúar síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

„Ástæðu aukinnar áfengissölu má líklega rekja til þess að í ár voru fimm helgar í janúar en í fyrra voru þær fjórar,“ segir í skýrslunni.

Þá var velta fataverslunar 11,3% minni í janúar á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra en jókst um 17,8% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum hækkaði um 32,8% á einu ári.

Einnig varð samdráttur í skóverslun. Þannig minnkaði velta skóverslunar um 18,0% í janúar á föstu verðlagi og um 2,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Það er til marks um samdrátt í skóverslun í janúar síðastliðnum að hún var 8% minni en í janúar 2007, mælt á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði um 19,2% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Í janúar minnkaði velta í húsgagnaverslun um 22% á föstu verðlagi miðað við janúar í fyrra og jókst um 2,1% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 30,9% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Velta dagvöruverslana lægri að raunvirði en árið áður

Í skýrslu Rannsóknarseturs kemur fram að undanfarna sex mánuði hefur velta dagvöruverslana verið lægri að raunvirði en árið áður.

„Ástæðuna má rekja til, gengisfalls krónunnar, verðhækkana og minnkandi kaupmáttar,“ segja skýrsluhöfundar.

„Verð á dagvörum í janúar var 32% hærra en í fyrra og kaupmáttur var 8,2% minni í desember en árið áður. Greinilegar vísbendingar eru um að þetta hafi leitt til breytts neyslumynsturs. Meiri hagkvæmni gætir í innkaupum og vöruval er annað en áður. Ljóst er að meiri ásókn er í lágvöruverðsverslanir en áður var og ódýrari matvæli valin frekar en það sem dýrara er. Þó svo að áfengi hafi hækkað heldur meira í verði en dagvörur virðist kreppan ekki hafa sömu áhrif á sölu þess og dagvöru. Sala á áfengi jókst eins og kemur fram í töflunni hér að ofan.“

Sjá skýrsluna í heild sinni. (pdf skjal)