Velta í dagvöruverslun var 4,7% meiri í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra, miðað við fast verðlag. Á hlaupandi verðlagi var hækkunin 13,8% milli ára.

Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar jókst sala á áfengi um 8,1% milli maímánaða 2005 og 2006 á föstu verðlagi en 9,8% á hlaupandi verðlagi. Miðað við árstíðar- og dagatalsleiðrétta vísitölu er aukning 0,5% í dagvöruverslun og 0,7% í áfengissölu milli apríl og maí.

Samkvæmt veltutölum er enn aukning í dagvöruveltu bæði á föstu og hlaupandi verðlagi í maí miðað við árið á undan. Einnig er nokkur aukning í áfengissölu. Þó hægir nokkuð á vexti veltu en ekki mjög hratt. Þegar leiðrétt hefur verið vegna dagatalsáhrifa er 12 mánaða aukning á föstu verði svipuð og í síðastliðnum mánuði eða 4,4% í dagvöruverslun og 5,6% í áfengisverslun. Hér má því sjá vísbendingu þess að vöxtur einkaneyslunnar sé að minnka.

Athyglisvert er að verð dagvöru lækkaði á milli apríl og maí og rétt að benda á að nokkrar hækkanir hafa komið fram í júní. Búast má við frekari hækkunum á dagvöru í júlí vegna tafinna áhrifa lækkunar gengis krónunnar á smásöluverð. Óvíst er um áhrif gengisþróunar á áfengisverð þar sem lítið samhengi hefur verið á milli gengisþróunar og áfengisverðs síðustu árin.