Velta í dagvöruverslun jókst um 9,6% í ágúst síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra, á breytilegu verðlagi. Á föstu verðlagi og árstíðarleiðrétt nam hækkunin 13%. Á milli mánaðanna júlí og ágúst jókst velta í dagvöruverslunum um 0,2% á breytilegu verðlagi. Verð á dagvöru hélst óbreytt á milli mánaðanna júlí og ágúst en hafði lækkað í ágúst um 4% frá sama mánuði í fyrra, samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

Mun meiri aukning var á sölu áfengis í ágúst en í dagvöru. Þannig jókst áfengissala á milli ára um 15% á breytilegu verðlagi og 11,3% á föstu verðlagi og árstíðaleiðrétt. Sala á áfengi jókst um 6,1% milli júlí og ágúst á breytilegu verðlagi. Hins vegar var samdráttur í fata- og skósölu á milli mánaða. Sala í fataverslun dróst saman um 5% og 2,2% í skósölu. Verð á fötum lækkaði um 8,5% á milli sömu mánaða en hækkaði um 2,6 á skóm. Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til jókst um 1,4% á milli júlí og ágúst á breytilegu verðlagi.