Velta hefur aukist í verslun á fyrstu sex mánuðum ársins og er nú svo komið að sala á matvöru er að nálgast það sem var fyrir hrun. Sala í dagvöruverslun í júní var jafn mikil og í júní árið 2007, samkvæmt upplýsingum Rannsóknaseturs verslunarinnar á Bifröst . Helsta ástæða aukinnar dagvöruverslunar er að einkaneysla innanlands eykst og verð á dagvöru fer lækkandi.  Sala til erlendra ferðamanna hefur einnig einhver áhrif og þó sérstaklega á verslun landsbyggðinni, samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknasetrinu.

Fram kemur í upplýsingum setursins að verð á dagvöru hefur lækkað um 1,4% frá áramótum og veltan eykst jafnt og þétt. Verð á áfengi hefur lækkað um 0,1% á þessum tíma. Hins vegar hefur verð á fötum og skóm hækkað um 11 – 12%. Ætla megi að styrking á gengi krónunnar skili sér fyrr út í verðlag á vörum með mikinn veltuhraða eins og mat og drykkjarvöru.

Þó samdráttur hafi verið í sölu á fötum og skóm í júní frá sama mánuði í fyrra hefur orðið vöxtur í nánast allri verslun þegar horft er til fyrstu sex mánaða ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta á sérstaklega við um raftækjaverslun sem jókst um 25,6% og verslun með húsgögn sem jókst um 16% á fyrri helming þessa árs miðað við fyrri helming síðasta árs. Velta dagvöruverslunar á fyrri helming ársins jókst um 3,3% að raunvirði frá sama tíma í fyrra, áfengisverslunar um 3,4% og fataverslunar um 3,5%.