Velta í hagkerfinu jókst mikið í maí- og júnímánuði síðastliðnum eða um 22,4% að nafnvirði miðað við sama tímabil í fyrra, segir greiningardeild Glitnis.

?Mikill vöxtur var í fjárfestingatengdum atvinnugreinum í maí og júní en sá vöxtur tengist að stórum hluta uppbyggingu á stóriðju. Þannig jókst veltan í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð um 54% á tímabilinu. Mjög mikill vöxtur var einnig í veltu í framleiðslu málma eða 37% og skýrist það af stækkun á verksmiðjunni á Grundartanga og háu álverði.

Velta í greinum tengdum einkaneyslu hélt áfram að aukast. Þannig jókst velta í bílasölu um 12% og í smásölu um 11%. Mikill vöxtur (19%) var í veltu í hótel- og veitingahúsarekstri ,og styður það áður fram komnar tölur um aukin umsvif í ferðaþjónustu í sumar. Þá var mikill vöxtur í veltu vegna fiskveiða, en það skýrist af veikingu krónunnar og háu afurðaverði," segir greiningardeildin.

Hún segir að veltuaukningin (22,4%) á tímabilinu, á heildina litið, mjög mikil og nokkuð meiri en búast mátti við í ljósi talna um hagvöxt á öðrum fjórðungi (2,75% hagvöxtur) sem birtust á föstudaginn.

?Þó ber að taka fram að stór hluti veltuaukningarinnar er í innflutningi sem kemur til frádráttar í útreikningi á landsframleiðslu. Þjóðarútgjöld jukust um 7% á öðrum fjórðungi, sem endurspeglar e.t.v. betur aukninguna á VSK-veltu. Greining áætlar að hagvöxtur verði 4,2% á árinu 2006," segir greiningardeildin.