Velta í smásöluverslun samkvæmt virðisaukaskattskýrslum dróst saman um 1,7% að raunvirði frá tímabilinu mars-apríl árið 2007 til tímabilsins mars-apríl 2008. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Síðast sást samdráttur í smásöluverslun í maí-júní árið 2003 og var þá 0,1%.

„Í Vegvísi 14. júlí síðastliðinn fjölluðum við um greiðslukortaveltu en hún gefur sterka vísbendingu um að einkaneysla hafi dregist saman á öðrum ársfjórðungi. Nýjustu tölur um nýskráningar bíla benda í sömu átt. Samkvæmt nýjustu mælingu á væntingavísitölu Gallup hafa neytendur ekki verið svartsýnni í sjö ár. Líkt og allar þessar vísbendingar bendir samdráttur í smásölu til þess að einkaneysla hafi dregist töluvert saman á öðrum ársfjórðungi,“ segir í Vegvísi.