Velta í dagvöruverslun dróst saman um 2.6% á föstu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra.

Á breytilegu verðlagi jókst velta dagvöruverslunar hins vegar um 17,5% miðað við sama mánuð í fyrra.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.

Þar kemur fram að neysla minnkar því áfram þó neytendur verji mun meira til matarinnkaupa nú en áður. Verð á dagvöru hækkaði um 20,5% á einu ári, frá september í fyrra til september á þessu ári.

Í september hægði hins vegar á verðhækkunum í dagvöruverslun frá undangengnum mánuðum og nam hækkunin 0,79% frá mánuðinum á undan.

Í skýrslunni kemur fram að samdráttur varð í öllum tegundum verslunar sem smásöluvísitalan nær til á föstu verðlagi nema í áfengissölu, sem jókst lítillega.

Aukin sala áfengis en samdráttur í fataverslun

Sala á áfengi jókst um 0,3% í september miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og um 9,5% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi hækkaði um 9,2% í september síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

Þá varð samdráttur í fataverslun í september. Veltan minnkaði um 17,5% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og um 4,9% á breytilegu verðlagi á sama tímabili.

Í skýrslunni kemur fram að vísitala fataverslunar á föstu verðlagi hefur ekki mælst svo lág frá því farið var að mæla hana í janúar 2007. Velta í fataverslun var 27% minni í september en í mánuðinum á undan að raunvirði og verð á fötum hækkaði um 13% á milli sömu mánaða.

Velta skóverslunar dróst saman um 6,5% í september á föstu verðlagi en jókst um 1,1% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.

Skýrsluhöfundar segja skóverslun því heldur hafa jafnað sig eftir samdrátt sem verið hefur allt frá því í maí síðastliðnum. Verð á skóm hækkaði um 8,2% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Í september minnkaði velta í húsgagnaverslun um 21% á föstu verðlagi miðað við september í fyrra og um 8,1% á breytilegu verðlagi. Eftir nokkurn vöxt í húsgagnaverslun í sumar dróst hún saman um næstum fjórðung í september miðað við mánuðinn á undan á föstu verðlagi.

Verð á húsgögnum hækkaði um 16,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og um 3% á milli mánaðanna ágúst og september.