Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, er sáttur við afkomu IKEA á síðasta ári en rekstrarári félagsins lauk 31. ágúst. Hann segir hagnað félagsins á árinu 2011 heldur meiri en árið áður þótt endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir. „Ágúst er stærsti mánuðurinn í rekstrinum og við erum að sjá meiri veltu á þessu ári en við reiknuðum með en kostnaðarverð seldra vara er hærra þar sem krónan hefur verið að gefa eftir frá áramótum.“ Tekjur IKEA námu rúmlega fimm milljörðum króna í fyrra. Hagnaður í varnarsigri Reglur IKEA gera ráð fyrir föstu verði í heilt ár og lék því fall krónunnar IKEA illa en tap var á rekstri félagsins árið 2009. Þórarinn segir það ekki hafa verið mikið í hlutfalli af veltu og 2008 hafi endað nálægt núllinu. „Við fengum undanþágu frá IKEA til að hækka verð sem ég held að sé í fyrsta skipti í sögu IKEA en þá hækkaði verðið um 20% bara til að við myndum lifa af.“ Árið 2010 skilaði svo hagnaði sem Þórarinn er mjög sáttur við enda segir hann fyrirtækið hafa háð mikla varnarbaráttu. Stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri IKEA eru vörukaup sem eru nánast öll í evrum og Þórarinn segir fyrirtækið eins og laufblað í vindi þar sem ekki er hægt að stýra kostnaðinum að neinu leyti. „Við getum hugsanlega skorið niður í launakostnaði eða auglýsingum en þarna ráðum við engu.“

Nánar má lesa um IKEA í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.