*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 20. febrúar 2021 18:01

Velta innanlands fylgi þróun faraldurs

Einkaneysla er orðin sveiflujafnandi í íslensku hagkerfi í stað þess að ýkja hagsveifluna líkt og oft áður.

Ritstjórn
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Kortaveltuþróun hefur haldist talsvert í hendur við framgang kórónuveirufaraldursins innanlands en samdráttur veltunnar hefur verið mestur um það leyti sem nýgengi smita innanlands hefur verið mikið.

Vegna þessa telur Greining Íslandsbanka ekki óvarlegt að ætla að veltan innanlands muni taka við sér jafnt og þétt á komandi vikum og mánuðum ef fram heldur sem horfir um fátíð smit innanlands.

Í umfjöllun bankans kemur fram að kortavelta gefi allskýra vísbendingu um þróun einkaneyslu, enda sé kortanotkun almenn hér á landi og mikill meirihluti neysluútgjalda greiddur fyrir tilstilli greiðslukorta.

Þá er bent á að einkaneysla hafi sveiflast minna en hagvöxtur í kórónukreppunni og að það sé nokkur nýlunda miðað við undanfarnar hagsveiflur þar sem einkaneysla hefur oft sveiflast talsvert meira en hagsvöxtur. Einkaneysla er þannig orðin sveiflujafnandi í íslensku hagkerfi í stað þess að ýkja hagsveifluna líkt og oft áður.