Tvo fyrstu mánuði ársins var velta á millibankamarkaði tæpir 4 milljarðar króna í hvorum mánuði en leita þarf allt aftur til ársins 1995 til að finna viðlíka veltu í einum mánuði.

Í febrúar nam velta með gjaldeyri á millibankamarkaði rétt tæpum 4 milljörðum króna en í febrúar fyrir ári síðan var veltan 550 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en Greining Íslandsbanka segir að þær breytingar sem orðið hafa á fjármálamörkuðum hér á landi á undanförnum mánuðum komi glögglega í ljós á millibankamarkaði með gjaldeyri. Veltan á millibankamarkaði sé nú ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.

Þá segir greiningardeildin að til vitnis um þau hamskipti sem orðið hafa á gjaldeyrismarkaði þá var veltan í febrúarmánuði síðastliðnum jafnmikil og hún var á meðaldegi á millibankamarkaði árið 2005 en allt frá því ári hefur velta á millibankamarkaði numið hundruðum milljarða í hverjum mánuði.

Á síðasta ári fór veltan þrisvar sinnum yfir 1.000 milljarðar króna innan eins mánaðar en það gerðist í mars, júlí og rétt áður en bankahrunið skall á í september.

„Sú breyting sem nú er orðin á veltutölunum er raunar í samræmi við það mat margra að aðeins séu um 5-10% af gjaldeyrisviðskiptum á fjármálamörkuðum heims tengd verslun með vöru og þjónustu,“ segir í Morgunkorni.

„Núverandi gjaldeyrismarkaður á Íslandi er einmitt takmarkaður við þess konar viðskipti.“

Sjá nánar Morgunkorn Íslandsbanka.