Velta á fasteignamarkaði nam 52 milljörðum króna í síðasta mánuði sem er 38,4% samdráttur frá því í desember 2021. Fjöldi kaupsamninga lækkaði um 34,7% á milli mánaða og voru 864 talsins. Velta á fasteignamarkaðnum hefur ekki verið minni síðan í júní 2020, að því er kemur fram í frétt á vef Þjóðskrár.

Á höfuðborgarsvæðinu var gerður 531 kaupsamningur í janúar, sem er 36,3% fækkun frá fyrri mánuði, og velta lækkaði um 37,6%.

Í síðustu mánaðarskýrslu HMS kom fram að áfram fari fjöldi íbúða til sölu fækkandi en í byrjun febrúar voru þær aðeins 1.031 talsins. Það er um 74% færri íbúðir en þegar mest lét í maí árið 2020 þegar nærri 4.000 íbúðir voru til sölu.