Nasdaq Iceland, kauphöllin á Íslandi, hefur gefið út viðskiptayfirlit fyrir árið 2014. Í yfirlitinu kemur meðal annars fram að heildarviðskipti með hlutabréf á árinu hafi numið 292 milljörðum króna eða 1.182 milljónum á dag. Er það 16% veltuaukning frá fyrra ári þegar hún nam 251 milljarði króna.

Á árinu voru mest viðskipti með bréf Icelandair Group en þau námu 71,9 milljörðum króna. Næst kom Marel með 32,6 milljarða og svo Hagar með 31,6 milljarða.

Verð bréfa Össurar hækkaði hins vegar mest á Aðalmarkaði eða um 58% á árinu. Þar á eftir komu bréf HB Granda sem hækkuðu um 54% í verði. Á First North markaðnum hækkaði gengi bréfa Century Aluminum mest eða um 187%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 4,1% á árinu og stendur nú í 1.311 stigum. Heildarvísitala hlutabréfa hækkaði um 10,6%.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 1.533 milljörðum á árinu sem samsvarar 6,6 milljarða veltu á dag, samanborið við 7,4 milljarða veltu á dag árið 2013. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 1.282 milljörðum en viðskipti með íbúðarbréf námu 200 milljörðum. Er það 15% samdráttur í meðaldagsveltu milli ára.

Nánar má lesa um viðskipti ársins í kauphöllinni hér .