Velta með hlutabréf nam 38.325 milljónum í Kauphöllinni í dag. Það jafngildir 1.916 milljóna króna veltu á degi hverjum og er það 718% meira en í maí í fyrra, að því er fram kemur í mánaðarlegu viðskiptayfirliti frá kauphöllum Nasdaq OMX á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Í maí í fyrra nam veltan að meðaltali 234 milljónum á dag. Þetta er jafnframt 41% meiri hlutabréfavelta en í apríl en þá nam velta með hltuabréf að meðaltali 1.356 milljónum króna á dag.

Fram kemur í viðskiptayfirlitinu að mest voru viðskiptin með hlutabréf Icelandair Group eða upp á 9.706 milljónir króna. Þar á eftir kom VÍS með veltu upp á 7.867 milljónir króna. Þá nam veltan með hlutabréf TM 5.685 milljónum króna og Marel 5.551 milljónum króna.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 4,6% á milli mánaða.

Landsbankinn var með mestu hlutdeildina á aðalmarkaði með hlutabréf eða 25,6% sem er tæpum 3 prósentustigum meira en í apríl. Íslandsbanki var með 21,4% hlutdeild og MP Banki með 16,6% hlutdeild.