Heildarvelta þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu nam 31,9 milljörðum króna í mars – þar af 20,1 milljarði með eignir í fjölbýli, 8,8 í sérbýli og 3 milljarðar með aðrar eignir – og jókst um 1,3% milli ára, og 2,2% milli mánaða. Þetta kemur fram í frétt á vef þjóðskrár .

Velta með fjölbýli dróst saman um 4,1% milli ára og 1,3% milli mánaða, en velta með sérbýli jókst um 15,2% milli ára og 14,6% milli mánaða.

Þinglýstir kaupsamningar voru 590 og fækkaði um 5,3% milli ára, en fjölgaði um 1,7% milli mánaða. Meðalupphæð á kaupsamning var 54 milljónir í mars og hækkaði um 6,9% milli ára og rúmt hálft prósent milli mánaða.

Séu tölur frá marsmánuði 2018 leiðréttar fyrir verðlagi dróst velta saman um 1,6%, en meðalupphæð á samning jókst um 3,9%.