Rétt rúmlega 1.000 viðskipti áttu sér stað með atvinnuhúsnæði á fyrstu 10 mánuðum ársins, og heildarfasteignamat þeirra eigna sem skiptu um hendur var 63,5 milljarðar króna.

Sömu tölur í fyrra voru 739 kaupsamningar og 34,6 milljarðar, og er því um 37% og 84% aukningu að ræða milli ára, í sömu röð. Leita þarf aftur til ársins 2018 til að finna sama fjölda viðskipta, og ársins 2016 til að finna sömu fasteignamatsveltu.

Aðgengi að fjármagni batnað
„Þessi markaður er alltaf frekar rólegur, en það hefur frekar verið hækkunarþrýstingur en öfugt undanfarið. Það hefur verið áþreifanlega auðveldara að fjármagna kaup síðastliðið um það bil ár en á undan því,“ segir Magnús Kristinsson, annar eigenda Jöfurs fasteignasölu og leigumiðlunar með atvinnuhúsnæði. „Kaupandi fellur síður á fjármögnun.“

Sjá einnig: Of­fram­boð af skrif­stofu­hús­næði

Raunverð atvinnuhúsnæðis hafði um mitt þetta ár hækkað um 8,5% frá sama tíma árið áður, en þá hafði það fallið um rúmlega fimmtung milli ára, og er enn um 14% lægra en á sögulegum hápunkti um mitt sumar 2019.

Metvelta úti á landi
Mikil velta var með atvinnuhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins í september- og októbermánuðum síðastliðnum. Fasteignamat þeirra eigna sem skiptu um hendur var um 12,2 milljarðar króna samanlagt yfir báða mánuðina, þar af rétt tæpir 7 í október.

Báðar tölur eru þær hæstu frá upphafi mælinga árið 2006. Októbertalan er aðeins um 100 þúsund krónum hærri en gamla metið frá því í nóvember 2006, en sé leiðrétt fyrir verðlagi var fasteignamat þess atvinnuhúsnæðis sem þá skipti um hendur utan höfuðborgarsvæðisins ríflega 13 milljarðar króna.

Tveggja mánaða tímabilin tvö sem innihalda þann mánuð eru að sama skapi þau einu sem skáka veltunni í september og október síðastliðnum að raunvirði. Fjöldi einstakra viðskipta nam 50 í september og 39 í október, sem er ekki óvanalegt síðustu ár, en í áðurnefndum nóvembermánuði 2006 nam hann 105.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .