Velta á millibankamarkaði í febrúar 2012 nam 13.955 milljónum króna, sem er 39,7% meiri velta en í fyrra mánuði, skv. hagtölum Seðlabankans.

Þar af námu gjaldeyriskaup Seðlabankans 982 milljónum króna eða 7% af heildarveltu mánaðarins. Þá veiktist meðalgengi krónunnar um 2,2,% gagnvart evru á milli mánaða.

Mest voru viðskiptin í febrúar föstudaginn 24. febrúar sl. eða um 2.830 milljónir króna. Stærstur hluti viðskipta á millibankamarkaði fór fram þá viku þegar veltan nam rétt rúmlega 8.800 milljónum króna.

Gjaldeyriskaup Seðlabankans fóru fram í fjórum hollum, alla þriðjudaga í febrúar. Þann 7. febrúar keypti bankinn gjaldeyri fyrir 243 milljónir króna, þann 14. febrúar keypti bankinn fyrir aðrar 243 milljónir, þann 21. febrúar keypti bankinn fyrir 245 milljónir króna og þann 28. febrúar keypti bankinn gjaldeyri fyrir 251 milljón króna.