*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 4. september 2021 19:01

Velta Múlakaffis helmingaðist

67 milljóna króna tap varð á rekstri Múlakaffis á síðasta ári, en árið áður nam hagnaður 343 milljónum króna.

Ritstjórn
Múlakaffi er til húsa í Hallarmúla 1.
Haraldur Guðjónsson

67 milljóna króna tap varð á rekstri Múlakaffis á síðasta ári og varð neikvæður viðsnúningur í rekstri félagsins, þar sem hagnaður ársins 2019 nam 343 milljónum króna. Rekstrartekjur félagsins námu 1,3 milljörðum króna og helminguðust frá fyrra ári er velta nam 2,6 milljörðum króna.

Múlakaffi rekur m.a. umfangsmikla veisluþjónustu og má gera ráð fyrir að samkomutakmarkanir sem vörðu meirihluta síðasta árs hafi valdið ofangreindum tekjusamdrætti. Rekstrargjöld drógust að sama skapi saman og námu 1,35 milljörðum í fyrra, samanborið við 2,34 milljarða árið áður.

Eignir Múlakaffis námu 1,1 milljarði króna í lok síðasta árs og eigið fé 690 milljónum króna. Laun og launatengd gjöld námu 556 milljónum króna á síðasta ári og voru stöðugildi 62.

Til samanburðar nam umræddur kostnaður 911 milljónum króna árið 2019 en þá voru stöðugildi 120. Jóhannes Stefánsson er eigandi Múlakaffis.

Stikkorð: Múlakaffi uppgjör