Hönnunarfyrirtækið Nikita fékk viðurkenningu Nýsköpunarsjóðs, Milljarðamærina, fyrir að hafa komist yfir milljarð í veltu á liðnu ári. Nikita hannar og selur föt undir vörumerkinu Nikita, slagorð þess er For girls who ride. Fatnaður og aðrar vörur frá fyrirtækinu eru nú seldar í um þrjátíu löndum.

Viðtökur fatnaðarins hafa verið mjög góðar og sala samkvæmt áætlunum. Nikita selur mest af sínum fatnaði í bretta/fataverslunum, og hefur gert auglýsingasamninga við nokkrar heimsfrægar atvinnu snjóbrettakonur sem eru í auglýsingum, bæklingum og öðru kynningarefni fyrirtækisins. Nikita kynnir nýja vörulínu tvisvar á ári og hafa viðtökur sem fyrr verið frábærar. Vörur Nikita ehf eru nú seldar með dreifingaraðilum í 30 löndum í nokkur hundruð búðum.

Fyrirtækið og dreifingaraðilar þess leggja áherslu á að vera eingöngu í vel völdum verslunum með góðum vörumerkjum á sama markaði. Hönnunarvinna og allur rekstur félagsins er í Reykjavík en framleiðsla fer fram í Kína, undir eftirliti íslensks fyrirtækis í Shanghai. Fyrirtækið á og rekur dótturfélög í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Nikita ehf. var formlega stofnað í febrúar 2000, en hafði frá árinu 1997 verið starfrækt sem hluti af brettaversluninni Týnda hlekknum.

Síðari hluta árs 2000 gerðist Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins 19,3% hluthafi í félaginu og er  Finnur Árnason í stjórn fyrirtækisins fyrir hönd sjóðsins.

Áætluð velta fyrirtækja sem NSA hefur lagt fé til er áætluð um níu milljarðar á árinu og hjá þeim starfa tæplega 500 manns.