Markaðsvirði skráðra bréfa í Kauphöll Íslands hækkaði um rúmlega 6,5 milljarða eða um 0,3% í nóvember og nam 2.465 milljörðum í lok mánaðarins, samkvæmt nýjum Efnahagsfregnum greiningar Kaupþings banka. Markaðsvirði Kaupþings jókst mest í mánuðinum eða um 19,4 milljarða en næst mest jókst markaðsvirði Landsbankanum eða um 11 milljarða króna. Þá hækkaði markaðsvirði Straums-Burðaráss um alls 7,3 milljarða. Mesta lækkun markaðsvirðis varð á bréfum Glitnis en markaðsvirði þeirra lækkaði um tæplega 15,7 milljarða í mánuðinum. Heildarvelta hlutabréfa í Kauphöllinni nam 117 milljörðum króna og lækkaði um tæplega 122 milljarða á milli mánaða. Mest var velta með bréf Kaupþings eða fyrir rúmlega 38 milljarða króna. Velta Landsbankans nam 20 milljörðum króna og velta Actavis nam 15,4 milljörðum. Samanlagt stendur velta þessara þriggja félaga að baki alls 63% af heildarveltu nóvembermánaðar. Fjöldi viðskipta í Kauphöllinni í nóvember var 8.195 og hafði þá minnkað um 16,1% á milli mánaða. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um 2,3% í nóvember.