Hagnaður Össurar á öðrum ársfjórðungi, án leiðréttingar vegna niðurfærslu óefnislegra eigna var um 2,1 milljón Bandaríkjadala (154 milljónir króna*), segir í tilkynningu en hagnaður tímabilsins, að undanskildum afskriftum óefnislegra eigna vegna fyrirtækjakaupa á síðustu misserum, var 3,9 milljónir dala (287 milljónir króna*), samanborið við 4,6 milljónir á öðrum ársfjórðungi 2005.

Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) var 13,1 milljón dala (964 milljónir íslenskra króna*), jókst um 69% frá öðrum ársfjórðungi 2005. EBITDA hlutfall var 20%, lækkar úr 22% á öðrum ársfjórðungi 2005.

Veltan á tímabilinu nam 65,5 milljónir Bandaríkjadala (4,8 milljarðar íslenskra króna*), jókst um 85% frá öðrum ársfjórðungi 2005, mælt í Bandaríkjadölum en greiningardeild Landsbankans reiknaði með um 80% veltuaukning á fjórðungnum. Söluaukning vegna innri vaxtar var 8%.

"Sala á Norður-Ameríkumarkaði var mjög góð. Aukning í sölu á stoðtækjum var umfram væntingar og sala á spelkum og stuðningsvörum var í takt við áætlanir. Á hinn bóginn var sala á spelkum og stuðningstækjum á Evrópumarkaði heldur lakari en áætlað var, sem skýrist einkum af lakari sölu til dreifiaðila," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar um uppgjörið.

* Samkvæmt reikningsskilareglum miðast umreikningur rekstrarliða milli gjaldmiðla við meðalgengi rekstrartímabils. Við umreikning úr Bandaríkjadölum yfir í íslenskar krónur fyrir annan ársfjórðung er notað meðalgengi 73,57 ISK/USD. Við umreikning efnahagsliða er notað gengi í lok júní 76,60 ISK/USD.