Velta fyrirtækisins Parspro.com Ltd. sem hefur sérhæft sig í þróun, gerð og þjónustu á hugbúnaði fyrir veðmálastarfsemi, ríflega tvöfaldaðist á síðasta ári að sögn Sigurðar Baldurssonar, framkvæmdastjóra og stofnanda félagsins.

Á hluthafafundi félagsins fyrir skömmu var samþykkt að greiða 15% arð en það er í fyrsta skipti frá stofnun félagsins sem það greiðir út arð.

Að sögn Sigurðar hefur hagur félagsins vænkast mikið að undanförnu og er nú verið að skoða möguleika á að setja upp söluskrifstofu erlendis. Ekki er langt síðan félagið ákvað að flytja höfuðstöðvar og lögheimili sitt til Íslands en fyrirtækið hafði verið skráð á Ermasundseyjunni Guernsey frá árinu 2000. Ástæða flutningsins var að skrifræði og óskilvirkni stjórnkerfisins var orðin félaginu mjög íþyngjandi. Var ekki talið lengur ávinningur fyrir félagið að vera með starfsemi á Guernsey þrátt fyrir að skattaumhverfi væri hagstæðara.

Að sögn Sigurðar er verkefnastaða félagsins mjög góð og vantar félagið hæfa tölvunarfræðinga til starfa. Hefur hingað til treyst mjög á undirverktaka en hefur hug á því að vaxa enn frekar á næstu misserum þannig að leit stendur yfir að góðu fólki sagði Sigurður.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag