Barnavöruverslun Petit hagnaðist um 9,1 milljón króna á síðasta ári samanborið við 2,3 milljóna króna hagnað árið 2017. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2018. Hagnaður verslunarinnar fjórfaldaðist því á milli ára. Petit selur meðal annars lífræn barnaföt, sérvalin leikföng, barnahúsgögn og barnavagna. Verslunin er til húsa í Ármúla 23.

Sala Petit nam rúmlega 172 milljónum króna á síðasta ári en árið áður nam hún tæplega 75 milljónum króna. Velta verslunarinnar rúmlega tvöfaldaðist því á milli ára. Eignir verslunarinnar námu 38,3 milljónum króna í lok síðasta árs samanborið við 23,9 milljónir árið áður. Þá var eigið fé Petit 14,2 milljónir í lok síðasta árs en var 5,1 milljón árið áður. Eiginfjárhlutfall var því rúmlega 37%.

Bugaboo barnavagnar slá í gegn

„Þessi mikla veltu- og hagnaðaraukning kom okkur nokkuð á óvart. Okkur fannst við alveg vera að stækka en vöxturinn var meiri en okkur grunaði," segir Gunnar Þór Gunnarsson, annar af eigendum Petit, en hann á og rekur verslunina ásamt unnustu sinni, Linneu Ahle. Árið 2018 var fyrsta heila árið sem verslunin er með hina vinsælu Bugaboo barnavagna í sölu og segir Gunnar að sú staðreynd skýri að ýmsu leyti vöxtinn.

„Linnea kynnti þessa vagna fyrir mér á sínum tíma, en hún lagðist í mikla undirbúningsvinnu fyrir fæðingu fyrsta barns okkar. Öll börnin okkar hafa verið í Bugaboo vögnum og því vissum við hversu góðir þessir vagnar eru. Við höfðum því mikinn áhuga á að hefja sölu á vögnunum hér á landi."

Það reyndist þeim þó alls ekki auðvelt að fá umboð til að selja Bugaboo-vagnana. Að sögn Linneu tók það verslunina heil þrjú ár að tryggja sér umboðið.

„Ég var í mjög reglulegum samskiptum við Bugaboo. Það voru fleiri verslanir hér á landi sem höfðu áhuga á að tryggja sér umboðið, enda er Bugaboo-merkið mjög þekkt og vinsælt víða um Evrópu. Það var ótrúlega ánægjulegt eftir margra ára vinnu að hreppa umboðið. Vagnarnir hafa fengið frábærar móttökur frá viðskiptavinum okkar."

Setja á fót eigin barnafatalínu

Eigendurnir, Gunnar og Linnea, hafa nýtt hagnað síðasta árs til þess að koma á fót eigin barnafatalínu og stefna þau á að línan verði komin í sölu í versluninni næstkomandi haust. „Fatalínan verður 100% lífræn án allra gervi- og litarefna. Við höfum alla tíð einblínt á að selja einungis lífræn föt í verslunum okkar. Það tók okkur eitt ár að finna réttan framleiðanda, sem uppfyllir okkar kröfur. Til að byrja með verður fatalínan einungis til sölu í verslunum okkar, en draumurinn er að hún fari einnig í sölu í verslunum erlendis síðar meir," segir Linnea.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Sagt frá ævintýralegum vexti íslensks félags sem starfar í sjávarútvegi.
  • Skýrsla Hagfræðistofnunar um íslenska lyfjamarkaðinn er krufin.
  • Umfjöllun um risabanka sem rær lífróður.
  • Ítarlegt viðtal við Eld Ólafsson, forstjóra kanadísks félags sem grefur eftir gulli á Grænlandi.
  • Íslenskt fyrirtæki hyggst leysa vandamál veitingastaða.
  • Nýr fagsviðsstjóri hjá Samorku er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um upplýsingaskort Klaustursleikstjóra.