Skeljungur hagnaðist um 159 milljónir á fyrsta ársfjórðungi, sem er rúmur 60% samdráttur milli ára. Tekjur námu 11 milljörðum króna og drógust saman um 4,7% milli ára, en svo til allur samdrátturinn var í starfsemi félagsins í Færeyjum, hvar velta dróst saman um 23%. Þetta kemur fram í nýbirtu fjórðungsuppgjöri félagsins .

Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 614 milljónum, var 115 milljónum undir upphaflegri áætlun, og dróst saman um rúm 30% milli ára. Launakostnaður jókst um 65% milli ára og nam milljarði króna, og sölu- og dreifingarkostnaður jókst um fimmtung. Arðsemi eigin fjár var 6,7%.

Heildareignir félagsins námu 26,6 milljörðum í lok fjórðungsins og höfðu aukist um 8,9% frá áramótum, og eigið fé nam 9,6 milljörðum og hafði dregist lítillega saman. Eiginfjárhlutfall nam því 36%.

Í sundurliðun sölutekna kemur fram að eldsneytissala nam 8,6 milljörðum og dróst saman um 15% milli ára, en önnur vörusala 2,4 milljörðum og jókst um 70%.

Fram kemur í tilkynningu með birtingu fjórðungsupgpgjörsins að viðsnúningur hafi verið í rekstri Basko ehf. á fjórðungnum, en Skeljungur eignaðist félagið á síðasta ári.

Í ljósi óvissu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar er EBITDA-spá félagsins 3-3,4 milljarðar króna fyrir árið, sem er lækkun úr 3,4-3,7 milljörðum samkvæmt fyrri spá.