Velta á skuldabréfamarkaði það sem af er degi nemur nú rétt rúmum 49 milljörðum króna og er óhætt að fullyrða að sambærileg velta á jafnskömmum tíma hafi sjaldan sést á íslenskum skuldabréfamarkaði.

Hækkun á ávöxtunarkröfu ríkis- og íbúðabréfa hefur í einhverjum tilfellum gengið til baka, en í öðrum tilfellum hefur hún hækkað frá því í morgun. Krafan hefur helst gengið til baka í allra stystu flokkum ríkis- og íbúðabréfa frá hápunktinum fyrr í dag, en hækkað í öðrum. Krafan er t.d. búin að hækka um 1,11 prósentustig á skuldabréfaflokki með gjalddaga í ár og 1,78% á flokki sem er með gjalddaga á næsta ári. Þá hefur hún hækkað um 1,50 prósentustig í flokki sem er með gjalddaga árið 2016.

Samkvæmt heimildum vb.is hefur Straumur verið stór á söluhliðinni í dag, en hann er með marga erlenda viðskiptavini. Ætla má að þeir hafi verið að losa um eignir sínar í styttri skuldabréfaflokkunum. Í næstu viku verður Seðlabankinn með gjaldeyrisútboð og verður áhugavert að sjá hvort áhugi erlendra krónueigenda í því útboði verður meiri en hann hefur verið í slíkum útboðum undanfarið.

Lesa má meira um málið hér og hér .