Velta í dagvöruverslun dróst saman um 2.0% á föstu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra.

Á breytilegu verðlagi jókst velta dagvöruverslunar hins vegar um 18,2% miðað við sama mánuð í fyrra.

Þetta kemur fram í nýrri smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar á Bifröst sem birt er í dag.

Skýrsluhöfundar segja ljóst að neysla minnkar þó neytendur verji mun meira til matarinnkaupa nú en áður.

Samkvæmt skýrslunni hækkaði verð á dagvöru um 20,5% á einu ári, frá ágúst í fyrra til ágúst á þessu ári. Sama þróun á sér stað í öðrum tegunda verslunar; verð heldur áfram að hækka og samdráttur er í veltu á föstu verðlagi.

Hærra verð og minni velta

Þá kemur fram að sala á áfengi minnkaði um 4,5% í ágúst miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi en jókst um 5.4% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi hækkaði um 10,3% í ágúst síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

Fataverslun dróst einnig saman á föstu verðlagi milli ára en jókst í krónum talið. Velta fataverslunar minnkaði um 8,7% á föstu verðlagi í ágúst síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra en jókst um 7,6% á breytilegu verðlagi á sama tímabili.

„Áhrif þess að sumarútsölum á fötum er lokið koma greinilega fram í hærra verði og um leið minnkandi veltu,“ segir í skýrslunni.

Þannig hækkaði verð á fötum um 4,6% í ágúst miðað við mánuðinn á undan. Í ágúst minnkaði veltan um 8,8% á föstu verðlagi og um 4,6% á breytilegu verðlagi miðað við næstliðinn mánuð. Verð á fötum hækkaði um 17,9% á síðustu 12 mánuðum.

Samdráttur varð í skóverslun í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra um 14,7% á föstu verðlagi og 4,7% á breytilegu verðlagi.

Fram kemur að skóverslun hefur verið minni í hverjum mánuði allt frá því í maí síðastliðnum miðað við sömu mánuði í fyrra á föstu verðlagi og hefur bilið aukist hvern mánuð. Velta í skóverslun í ágúst dróst saman um 9,2% frá mánuðinum á undan á föstu verðlagi. Verð á skóm hefur hækkað um 11,6% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Í ágúst minnkaði velta í húsgagnaverslun um 8,0% á föstu verðlagi miðað við ágúst í fyrra og jókst um 3,7% á breytilegu verðlagi. Eftir nokkra lægð í húsgagnaverslun undanfarna mánuði jókst hún aftur í ágúst.

Verðbólguáhrif og samdráttur í einkaneyslu koma fram

Í skýrslunni kemur fram að nú er liðið eitt ár síðan Rannsóknasetur verslunarinnar hóf að mæla veltuvísitölu húsgagnaverslana og því í fyrsta sinn sem hægt er að gera samanburð á milli ára. Verð á húsgögnum hækkaði um 12,7% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Skýrsluhöfundar segja verðbólguáhrif og samdrátt í einkaneyslu greinilega koma fram í verslun.

„Mikil veltuaukning var í verslun með mat og aðrar nauðsynjar í krónum talið en dróst saman að raungildi, þ.e. þegar tekið hefur verið er tillit til verðhækkana,“ segir í skýrslunni.

„Þetta er í takt við aðra mælikvarða sem tengjast þróun einkaneyslu. Þannig var kaupmáttur launa 3,9% minni í júlí síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra og raunlækkun varð á veltu innlendrar greiðslukortanotkunar á tímabilinu janúar – júlí síðastliðin um 3,1% miðað við sama tímabil í fyrra, þó að veltan í greiðslukortanotkun hafi aukist um 5,2% í krónum talið.“

Verslanir taka á sig hækkanir

Skýrsluhöfundar segja jafnframt að þrátt fyrir miklar verðhækkanir má ætla að verslunin hafi að nokkru leyti tekið á sig hækkanir.

Gengisvísitalan hækkaði á einu ári, frá ágúst í fyrra til ágúst á þessu ári, um 32% og ættu innfluttar vörur því að hafa hækkað um sama hlutfall ef innkaupsverð hefði haldist óbreytt og ef gengisáhrifin hefðu öll komið fram í verðlagi. Verðhækkanir á sérvörum eins og fötum, skóm og húsgögnum hafa verið mun minni en gengisáhrifin segja til um.