Velta sjö stærstu veitingafyrirtækja landsins nam rúmlega 21,6 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 7,6% frá árinu á undan. Þrátt fyrir að velta hafi aukist, dróst hagnaður saman hjá fimm af sjö stærstu fyrirtækjunum um samtals 336 milljónir króna.

Pizza-Pizza ehf., sem á og rekur Domino‘s á Íslandi, er stærsta veitingafyrirtæki landsins með veltu upp á ríflega 5,5 milljarða króna en hún jókst um 9% milli ára. Hagnaður félagsins tífaldaðist hins vegar á milli ára en sú aukning kemur að mestu leyti til af söluhagnaði eignarhluta á síðasta ári upp á 1.775 milljónir króna en Domino‘s Pizza Group, sérleyfishafi keðjunnar í Bretlandi, bætti við hlut sinn í fyrirtækinu í fyrra og fer nú með um 95% hlut. Ársverk fyrirtækisins voru 299 og jukust um 4,5% milli ára á sama tíma og beinn launakostnaður jókst um 9,2%,

Lagardére travel retail ehf., sem rekur veitingastaði og sælkeraverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, er næststærst með veltu upp á tæplega 3,8 milljarða króna og aukningu upp á 26%. Þá jókst hagnaður félagsins um 37% milli ára og nam 248 milljónum. Félagið er eins og áður segir umsvifamikið í flugstöðinni en það rekur veitingahúsin Nord og Mathús, kaffihúsin Kvikk Café og Segafredo, barinn Loksins og verslunina Pure Food Hall. Ársverk fyrirtækisins voru 153 og fjölgaði um 14% milli ára en á sama tíma jókst beinn launakostnaður einungis um 4,4%.

Í þriðja sæti kemur svo FoodCo hf. sem rekur meðal annars Saffran, Aktu Taktu og Eldsmiðjuna en samtals rt fyrirtækið með 20 veitingahús í rekstri. Tekjur félagsins drógust saman um 11% á síðasta ári og námu rúmlega 3,5 milljörðum króna. Þá dróst hagnaður FoodCo saman um ríflega helming frá 2016 og nam 105 milljónum króna á síðasta ári. Ársverk voru 219 og stóðu nánast í stað á meðan beinn launakostnaður lækkaði um 4%.

Velta KFC ehf., sem rekur samnefnda skyndibitastaði, jókst um 5% milli ára og nam 3.059 milljónum króna. Þrátt fyrir aukna veltu dróst hagnaður hins vegar saman milli ára og nam 138 milljónum á síðasta ári. Ársverkum félagsins fjölgaði um 4,2% á síðasta ári og voru 149 en á sama tíma jókst beinn launakostaður um tæplega 11%.

© vb.is (vb.is)

Tekjur Múlakaffis jukust um 13% á síðasta ári og námu rúmlega 2,4 milljörðum. Hagnaður félagsins dróst þó saman um 57 milljónir milli ára og nam 81 milljón. Samdrátt í hagnaði má þó að einhverju leyti skýra með því að á árinu 2016 var bókfærður 101 milljónar hagnaður vegna sölu hlutabréfa í bókum félagins á meðan sú stærð stóð á núlli á síðasta ári.

Stjarnan ehf., sem rekur Subway á Íslandi, hagnaðist um 13 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 130 milljóna hagnað á síðasta ári. Velta félagsins nam tæplega 2,2 milljörðum á síðasta ári og jókst um 8% milli ára. Ársverk hjá fyrirtækinu voru 151 sem er 7% aukning milli ára. Beinn launakostnaður félagsins jókst hins vegar um 15,1% milli ára.

Joe Ísland ehf., sem rekur Joe & The Juice á Íslandi, seldi samlokur og djús fyrir rúmlega 1,1 milljarð króna á síðasta ári og jókst velta félagsins um 14% milli ára. Hagnaður Joe Ísland ehf. lækkaði hins vegar úr 84 milljónum króna niður í 68 milljónir frá 2016. Ársverk hjá fyrirtækinu voru 52 og fjölgaði um 12. Beinn launakostnaður nam 323 milljónum og jókst um 32% milli ára.

Nánar má lesa um málið í bókinni 300 stærstu sem Frjáls verslun var að gefa út. Hægt er að kaupa bókina hér .