Hlutabréf Zoom, sem rekur samnefnt samskiptaforrit, hafa hækkað um tæp 7% í viðskiptum fyrir opnun markaða vestanhafs eftir birtingu ársuppgjörs í gær.

Hagnaður Zoom hækkaði úr 22 milljónum dollara árið 2019 í 672 milljónir dollara á síðasta ári. Velta fyrirtækisins nam 2,6 milljörðum króna árið 2020 sem er um 326% hækkun frá fyrra ári. Veltan á síðasta ársfjórðungi 2020 nam 882,5 milljónum dollara og hækkaði um 370% frá sama tímabili árið 2019.

„Fjórði ársfjórðungurinn markar sterkan endi á fordæmalausu ári fyrir Zoom,“ sagði Eric Yuan, forstjóri Zoom, við fjárfesta í gær. Hann sagði jafnframt að vinna fyrirtækisins væri rétt að byrja þrátt fyrir að heimurinn væri að ná tökum á Covid faraldrinum.

Fjárfestar fylgjast náið með hvort fjarfundaforritsins haldi vinsældum sínum eftir því sem fleiri verða bólusettir og samkomutakmarkanir rýmka, að því er segir í frétt BBC . Bandaríska fyrirtækið gerir ráð fyrir að reksturinn verði áfram sterkur þó vöxturinn verði ekki jafn mikill og á síðasta ári. Fyrirtækið spáir því að veltan aukist um meira en 40% í ár og nemi 3,7 milljörðum dollara sem jafngildir 469 milljörðum íslenskra króna.