Gjaldeyrismarkaðurinn hefur bæði dýpkað og orðið virkari á síðustu árum, segir greiningardeild Glitnis.

?Veltan á millibankamarkaði með gjaldeyri var 4.393 milljarðar króna í fyrra sem er met og ríflega tvöfalt meiri velta en var á árinu á undan sem einnig var met í sögulegu samhengi. Veltan á gjaldeyrismarkaði var í fyrra um fjórföld landsframleiðsla og hefur markaðurinn vaxið á þann mælikvarða undanfarin ár.

Við þetta bætist svo ör vöxtur gjaldeyrisviðskipta utan millibankamarkaðar á síðasta ári. Er þetta vísbending um opnari og virkari fjármálamarkað þar sem fjárfestar eru öflugri og kvikari en áður var. Þetta er af hinu góða því í leiðinni er verðmyndun krónunnar orðin virkari,? segir greiningardeildin.

Hún segir að aukin velta endurspeglar að einhverju leiti þann óróleika sem var í íslenskum efnahagsmálum og í umhverfi bankanna á síðastliðnu ári.

?Gengi krónunnar lækkaði um 18,8% yfir árið og er það meiri lækkun fyrir eitt ár en hefur orðið í gengi krónunnar í yfir heilan áratug. Hún slær við árinu 2001 sem oft er minnst fyrir mikla og hraða lækkun krónunnar en yfir það ár lækkaði gengi krónunnar um 14,8%,?

Að meðaltali lækkaði krónan um 10,4% á milli áranna 2005 og 2006 og er það nokkru minna en hún gerði á milli áranna 2000 og 2001 en þá lækkaði hún um 16,7%. Engu að síður er lækkunin nokkuð mikil. Þegar hún er skoðuð er þó rétt að minnast þess að á milli áranna 2004 og 2005 hækkaði krónan um 11,4% að verðgildi.

Í þessu sambandi er rétt einnig að minnast þess að raungengi krónunnar er nú nálægt meðaltali sínu undanfarin ár. Gengi krónunnar er því ekki lágt í sögulegu ljósi þrátt fyrir lækkun á síðasta ári,? segir greiningardeildin.