*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 29. febrúar 2020 15:02

Veltan ekki verið meiri frá hruni

Velta á hlutabréfamarkaði hefur nú aukist átta mánuði í röð og hefur aldrei verið meiri yfir 12 mánaða tímabil frá hruni.

Ástgeir Ólafsson

Velta á hlutabréfamarkaði í febrúar nam 69,6 milljörðum króna og jókst um 28,8 milljarða frá sama mánuði í fyrra eða um 52%. Var þetta áttundi mánuðurinn í röð sem viðskipti á markaðnum aukast. Veltan var að meðtaltali 3,5 milljarðar króna á dag samanborið við tæplega 2,3 milljarða í sama mánuði í fyrra. 

Samanlögð velta síðustu 12 mánaða nemur nú 665,5 milljörðum sem er mesta velta yfir 12 mánaða tímabil á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar frá hruni, 23,7 milljörðum meiri en hún var í júlí 2017. Þá hefur veltan aukist um 23,8 milljarða frá sama tímabili fyrir ári síðan eða 37,5% sem jafnframt var lægsta 12 mánaða tímabilið frá því í apríl 2016. 

Mest velta í mánuðinum var með bréf Marel eða 14,6 milljarðar en þar á eftir komu bréf Arion banka með 9,5 milljarða, bréf Festi með 5,9 milljarða og bréf Símans með 5,3 milljarða veltu. 

Viðskipti í mánuðinum voru 4.376 talsins sem samsvarar meðalstærð viðskipta upp á 15,9 milljónir en fjöldi viðskipta jókst um 39,6% milli ára frá febrúar í fyrra þegar meðalstærð viðskipta var 14,6 milljónir. Flest viðskipti voru með bréf Icelandair Group eða 787 talsins í tæplega 3,3 milljarða veltu. Næst flest viðskipti voru svo með bréf Marel eða 531 og þriðju flest voru með bréf Arion banka eða 372. 

Arion með hæstu hlutdeildina

Annan mánuðinn í röð var Arion banki með hæstu hlutdeildina í miðlun á hlutabréfamarkaði eða 22,3% en þar á eftir komu Íslandsbanki með 18,7%, Kvika banki með 17,6% og Fossar Markaðir með 16,4%. 

Heildarupphæð fimm stærstu viðskipta mánaðarins nam rúmlega 3,8 milljörðum en þau stærstu voru 1.066 milljóna viðskipti með bréf TM þann 18. febrúar. Af fimm stærstu viðskiptunum áttu Fossar markaðir tvö þeirra en Íslandsbanki, Kvika og Arctica Finance áttu eitt hvert.