Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir á höfuðborgarsvæðinu í júlí var 658. Heildarvelta nam 34,7 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 52,8 milljónir króna. Þegar júlí 2017 er borinn saman við júlí 2016 fjölgar kaupsamningum um 4,3% og velta eykst um 29,6%.Á milli mánaða fjölgar kaupsamningum aftur á móti um 8,2% og velta eykst um 5,3%.

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, bendir á að fjöldi kaupsamninga aukist ekki ýkja mikið á milli ára, en á sama tíma aukist veltan talsvert. „Þetta tengist mikilli hækkun fasteignaverðs. Aftur á móti ef við lítum á mánaðarlegan fjölda kaupsamninga einhverja mánuði aftur í tímann, virðist ekki vera mikil fjölgun þessi misserin. Fjöldi samninga á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að sveiflast í kringum 600 á mánuði,“ útskýrir hann.