*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 24. janúar 2017 09:56

Veltan jókst um 1,5 milljarða

Velta tveggja stærstu bílaleiga landsins nam samtals 8,7 milljörðum króna árið 2015 og var hagnaðurinn rúmlega hálfur milljarður.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Tvær stærstu bílaleigur landsins skiluðu rúmlega hálfs milljarðs króna hagnaði árið 2015 og veltu samtals 8,7 milljörðum króna.

Jókst velta Alp hf. sem rekur Avis og Budget-bílaleigurnar og Bílaleigu Akureyrar/Höldur um 1,5 milljarða króna á árinu 2015 að því er fram kemur í umfjöllun DV um málið.

Síðan þá hefur fjöldi ferðamanna og væntanleg umsvif bílaleiganna aukist enn meira, en upplýsingarnar eru fengnar úr ársreikningum fyrirtækjanna.

Í júní árið 2015 voru 16.358 skráðir bílaleigubílar í umferð og eiga þessi tvö fyrirtæki umtalsverðan hlut í þeim fjölda.

Eignir langt umfram skuldir 

Námu rekstrartekjur Alp hf. rúmum þremur milljörðum króna á umræddu ári, en þau höfðu verið rétt rúmlega 2,3 milljarðar árið 2014. 

Jókst hagnaður fyrirtækisins úr 121 milljón króna í rúma 231 milljón króna á milli ára. Eignir fyrirtækisins voru metnar á 4,8 milljarða en skuldir á rúma 4 milljarða í árslok 2015.

Ef skoðaður er samanburður við ársreikninga árið 2010 sést að þá voru rekstrartekjur Alp um 1,3 milljarðar króna, sem þýðir að aukningin á fimm árum nam 130%.

Velta Bílaleigu Akureyrar jókst um 159%

Rekstrartekjur ársins 2015 hjá Bílaleigu Akureyrar námu 5,7 milljörðum króna, en árið 2014 voru þær milljarði minni, eða 4,7 milljarðar. 

Fór hagnaðurinn milli ára úr 252 milljónum króna í 335 milljónir. Námu eignir félagsins 10,6 milljörðum króna í árslok 2015 sem er rétt undir skuldunum sem voru rúmir 11 milljarðar.

Til samanburðar nam velta Bílaleigu Akureyrar árið 2010 2,2 milljörðum króna árið 2010 sem þýðir 159% aukningu á fimm árum.