Velta á hlutabréfamarkaði nam 71,2 milljörðum króna í janúarmánuði og jókst um 29,7 milljarða eða 71,4% frá sama tímabili í fyrra. Velta á markaðnum hefur nú aukist samfleytt sjö mánuði í röð þar en á síðustu tólf mánuðum nemur hún 641,7 milljörðum króna og hefur aukist um 147,5 milljarða frá sama tímabili fyrir ári síðan eða um 29,8%. Þá var veltan yfir 12 mánaða tímabil jafn mikil og hún var í júlí 2017 sem er hæsta 12 mánaða tímabil frá hruni.

Mest velta í mánuðinum var með bréf Marel eða 12,5 milljarðar króna en þar á eftir komu bréf Arion banka með 8,3 milljarða veltu og bréf Festi með 7,8 milljarða veltu. Alls jókst velta með bréf 17 félaga af 20 milli ára en þó verður að hafa í huga að bréf Kviku banka og Iceland Seafood voru skráð á First North markað kauphallarinnar í janúar á síðasta ári.

Viðskipti í janúarmánuði voru 3.825 talsins og fjölgaði 971 milli ára eða um 34% milli ára. Flest viðskipti voru með bréf Icelandair í mánuðinum eða 508 en þar á eftir komu bréf Marel með 495 viðskipti og bréf Arion með 312 viðskipti.

Arion með mestu hlutdeildina

Arion banki var með mestu hlutdeildina í miðlun á hlutabréfamarkaði í mánuðinum eða 24%. Þar á eftir kom Íslandsbanki með 20,7% og Landsbankinn með 16,8% en auk þess var Kvika með 14,9% og Fossar markaðir með 13,8%.

Heildarupphæð fimm stærstu viðskipta mánaðarins nam rúmlega 3,1 milljörðum en þau stærstu voru 972 milljóna viðskipti með bréf Heimavalla þann 20. Janúar. Af fimm stærstu viðskiptunum átti miðlun Landsbankans þrjú þeirra á meðan Fossar markaðir og Arion banki voru með ein.