Arctic  Adventures er eitt stærsta afþreyingarfyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu. Frá því að Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic, keypti félagið ásamt meðfjárfestum árið 2015 hefur það vaxið úr 900 milljóna króna veltu árið 2014 í um 5,8 milljarða á þessu ári. Vöxtur félagsins síðustu ár hefur bæði átt sér stað með sameiningum og yfirtökum á minni fyrirtækjum í afþreyingu fyrir ferðamenn en einnig hefur verið töluverður vöxtur í eigin ferðum fyrirtækisins og nýjum. Á þeim tíma sem Jón Þór hefur verið forstjóri Arctic hefur félagið keypt eða sameinast 11 fyrirtækjum en segja má að stærsta skrefið í þeirri vegferð hafi verið stigið þegar Arctic Adventures sameinaðist Extreme Iceland árið 2017.

Jón er menntaður verkfræðingur og með  MBA  gráðu frá Alabama-háskóla í Bandaríkjunum. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri  Iceland  Seafood  í Bretlandi frá 1995-2004. Eftir að hann kom heim til Íslands stýrði hann erlenda hluta sjávarútvegsdeildar Landsbankans auk þess sem hann var í endurskipulagningardeild bankans í eitt ár eftir að fjármálahrunið reið yfir. Eftir það sinnti hann ráðgjafarstörfum og þá sérstaklega við endurskipulagningu fyrirtækja. „Svo fór ég að hafa áhuga á ferðaþjónustu,“ segir Jón spurður hvernig það kom til að hann fékk áhuga á greininni. „Ég skoðaði ferðaþjónustuna út frá því hver tækifærin væru og maður sá að flugfélögin, hótelkeðjurnar og bílaleigurnar voru þá þegar orðin tiltölulega skipulögð og stór fyrirtæki sem leiddu hvern geira. Mér fannst afþreyingarhlutinn áhugaverður af því hann var meira óstrúktúraður. Það voru mjög mörg afþreyingarfyrirtæki og þegar ég skoðaði ársreikninga þeirra þá voru mörg þeirra 10-20 ára gömul og höfðu mörg hver aldrei skilað hagnaði. Þau voru á leiðinni í rétta átt á árunum 2012 til 2014 og mörg komin með jákvæða EBITDA og einhver farin að skila hagnaði. Manni fannst miðað við framtíðarsýnina á fjölgun ferðamanna til landsins að þessi afþreyingarfyrirtæki ættu mikið inni. Vegna þess að afkoman var ekki mikil  þá var tiltölulega auðvelt að fara inn í þennan hluta ferðaþjónustunnar með endurskipulagningu í huga.“

Veltan jókst um 75%

Hvers vegna varð Arctic Adventures fyrir valinu?

„Ég og Styrmir Þór Bragason, sem hefur verið félagi minn í þessum rekstri, höfðum rætt þessa hugmynd varðandi sameiningar í afþreyingarhlutanum. Við bjuggum til ákveðið plan sem snerist um að ná utan um nokkuð mörg fyrirtæki, sameina þau, ná fram hagræðingu og og styrkja stjórnun í sameinuðu fyrirtæki ef svo má segja. Aðallega snerist þetta þó um að ná fram samlegðaráhrifum úr sameiningunum. Okkur fannst hins vegar vanta „platform“ til þess að geta komist áfram. Við þurftum eitthvað sem væri nægilega stórt og helst með vörumerki sem væri síðan hægt að raða smærri fyrirtækjum inn í. Við fengum svo ákveðið tækifæri í gegnum félaga okkar, Halldór Hafsteinsson og Davíð Másson, sem voru meirihlutaeigendur í Arctic Adventures á þessum tíma. Við lögðum þessa hugmynd fyrir þá um að fara í vegferð við að stækka fyrirtækið, kaupa inn fyrirtæki og ná fram  samlegðaráhrifum. Þetta hófst því með kaupunum á  Arctic  árið 2015 en þá keyptum við alla fyrrverandi hluthafa út og vorum þá fjórir eigendur.“

Jón segir að nýir eigendur hafi fljótlega hafist handa við að hrinda áætlunum sínum í verk. „Fyrsta sameiningin var við fyrirtæki sem Styrmir átti og hét Trek Ferðir og var stærsta sérhæfða göngufyrirtæki landsins. Hann kom með það inn og fékk hlut í Arctic á móti. Það voru fyrstu samlegðaráhrifin sem við náðum því  Arctic var í gönguferðum líka. Arctic átti síðan helmingshlut í Glacier Guides, sem er í jöklagöngum í Skaftafelli  og við keyptum hinn helminginn í því félagi um vorið 2015. Við áttum það þá að fullu og síðan byrjar boltinn að rúlla varðandi þessar sameiningar.

Sameiningin við  Extreme  Iceland  á árinu 2017 var síðan langstærsta sameiningin. Hin fyrirtækin sem við höfðum keypt voru með veltu á bilinu 100-300 milljónir. Þetta voru því yfirleitt tiltölulega lítil kaup. Árið 2016 velti  Arctic  Adventures, sem hét þá Straumhvarf ehf., 2,6 milljörðum á meðan Extreme  Iceland  velti um 2 milljörðum. Viðræðurnar um sameiningu hófust í lok árs 2016. Síðan þurfti að fara í gegnum Samkeppniseftirlitið og kláraðist sameiningin í lok júní 2017. Þetta var stór ákvörðun því velta fyrirtækisins jókst um 75% við sameininguna. Eigendur beggja fyrirtækja voru sannfærðir um að það væri mikilvægt að fara í þessa sameiningu og hefur árangurinn af sameiningunni staðfest þessa sýn okkar.“

Fyrirtækjakúltúrinn skiptir máli

Það er þekkt í viðskiptalífinu bæði hér heima og erlendis að sameiningar fyrirtækja reynast oft á tíðum erfiðar og hafa rannsóknir sýnt að 70-80% af sameiningum ná ekki að skapa þau samlegðaráhrif sem þeim var ætlað. Að mati Jóns eru kúltúrvandamál ein af meginástæðum þess að sameiningar heppnist illa og því hafi verið lagt upp með að blanda ekki kúltúrum tveggja saman. „Þegar við höfðum skoðað fyrirtæki með sameiningu í huga, skipti miklu máli að fyrirtækin pössuðu inn í hugmyndafræðina á bak við Arctic og ferðir fyrirtækisins bættu við okkar ferðaframboð eða að hægt væri að sameina ferðir inn í okkar ferðir. Lykilatriði í sameiningum er síðan að velja í upphafi hvaða kúltúr þú ætlar að hafa og að þú reynir ekki að blanda saman mismunandi kúltúrum. Það að blanda saman kúltúrum er að mínu mati meginástæðan fyrir því að sameiningar heppnist illa. Allar sameiningar okkar hafa því verið gerðar þannig að fyrirtækin hafa sameinast inn í Arctic Adventures og þann fyrirtækjakúltúr sem þar er. Við höfum vissulega notið góðs af þekkingu og vinnubrögðum í þeim fyrirtækjum sem hafa sameinast okkur. Til dæmis þegar Extreme sameinaðist Arctic þá komu þeir með tölvukerfi sem voru mun þróaðri en okkar og höfum við notið mjög góðs af því.“

Hvert er grunnstefið á bak við  Arctic Adventures í dag og hefur það breyst frá því að þú tókst við?

Grunnstefið í upphafi var að við værum afþreyingarfyrirtæki sem væri aðallega í dagsafþreyingu – jöklagöngum, „rafting“, köfun, gönguferðum og o.s.frv. Síðan þróaðist þetta meira út í hefðbundnar skoðunarferðir. Síðustu tvö árin hafa svokallaðar „multi day“ ferðir einnig stækkað mikið og eru orðnar mikilvægur hluti af okkar veltu. Í dag er grunnhugmyndin sú að við erum nánast í allri afþreyingu sem ferðamenn vilja fara í á Íslandi. Við erum framkvæmdaaðili ferðanna og sjáum sjálf um allt saman. Við búum til ferðirnar, eigum bílana og ráðum leiðsögumennina. Þegar við byrjuðum þá voru ekki nema 6-8 fastráðnir leiðsögumenn í fyrirtækinu. Núna eru þeir í kringum 170. Áður voru þetta mikið verktakar en núna erum við með þennan fjölda leiðsögumanna sem nánast allir eru fastráðnir og flestir vinna allt árið um kring. Starfsfólk fyrirtækisins kemur alls staðar að úr heiminum en um 40% þeirra eru erlendir. Hópurinn sem starfar innan Arctic Adventures í dag hefur mikla þekkingu á rekstri ferða, og er ég stoltur af þeim hópi sem lætur fyrirtækið ganga nánast snurðulaust frá degi til dags, oft við erfiðar aðstæður í veðri og síbreytilegri náttúru. Allar ferðir Arctic eru gerðar á grundvelli „small group“ hugsunar sem byggist á að hópastærðir séu undir 20 manns og notast fyrirtækið því nánast eingöngu við bíla sem eru með undir 19 sætum.“

Nánar er rætt við Jón Þór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .