Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi hækkaði um 9,2% í nóvember og desember frá árinu á undan. Fór hún úr 675 milljarða króna í 737 milljarða króna yfir þetta tímabil. Hagstofa Íslands tekur þetta saman en í þessum tölum er lyfjaframleiðsla og landbúnaður undanskilin út af því að verið er að yfirfara tölurnar eða þær hafa ekki skilað sér að fullu.

Fyrir allt árið var virðisaukaskattskyld velta 4.145 milljarðar sem er 4,2% hærri en árið áður þegar hún var 3.979 milljarðar króna. Mest aukning var undir liðnum Erlendir aðilar sem selja rafræna þjónustu, en hann hækkaði úr 4 milljörðum í 7 milljarða á milli áranna, eða um 93,2%.

Næst á eftir kom Byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu, sem hækkaði um 14,8%. Leiga á bifreiðum og léttum vélknúnum ökutækjum sem hækkaði um 12,5% og Olíuverslun sem hækkaði um 12,4%. Mest lækkun var hins vegar í Heild- og umboðsverslun með fisk, eða um 15,0% en einnig var lækkun í Fiskveiðar, fiskeldi og vinnsla sjávarafurða, eða um 8,6%.