Að sögn Kristins Vilbergssonar, forstjóra Pennans, er unnið að því að einfalda rekstur dótturfélaga fyrirtækisins í Eystrasaltinu. Eftir kaup á lettneska rekstrarvörufyrirtækinu AN Office og rekstrarvörukeðjunni Daily Service, sem starfar í Eistlandi, Lettlandi og Litháen, er félagið orðið umsvifamesta rekstrarvörufyrirtækið í Eystrasaltslöndunum. Lætur nú nærri að heildarvelta félaga á þeirra vegum sé um 45 milljónir evra eða rúmlega 3,7 milljarðar króna. Velta Daily Service jókst um 11,9% á síðasta ári. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Penninn keypt allt hlutafé í rekstrarvörukeðjunni Daily Service í apríl síðastliðnum. Fyrirtækið er með 320 starfsmenn og ársveltu sem nemur tveimur milljörðum króna. Á síðasta ári keypti félagið 73% hlut í lettneska rekstrarvörufyrirtækinu AN Office í gengum AN Holding sem stofnað var sérstaklega í kringum kaupin. Að sögn Kristins er líklegt að af sameiningu fyrirtækjanna verði í framtíðinni. Fyrstu skrefin eru hins vegar þau að taka starfsemi Daily Service í Lettlandi og leggja hana inn í AN og öfugt. "Þetta snérist alltaf um það að sameina þessar minni einingar og gera eina stóra. Við horfum í dag á þetta allt sem sjálfstæðar einingar. Í dag fer hins vegar mesta vinnan í að sameina þetta í hverju landi fyrir sig."

Hérlendis rekur Penninn fjölda verslana um land allt undir eigin nafni auk Griffils, Eymundssonar og bókabúðar Máls og menningar við Laugaveg. Fyrir skömmu var tilkynnt um kaup Pennans á kaffiframleiðandanum Melna Kafija, í samstarfi við Te & kaffi.