*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 28. mars 2018 12:49

Veltan nam tæplega 40 milljörðum

Samanlögð velta Marel, Hampiðjunnar, Skagans3X, Curio og Völku er meiri en heildarveltan í greininni í byrjun áratugar.

Ritstjórn
Flæðilína frá Marel.
Aðsend mynd

Velta fimm stærstu tæknifyrirtækjanna í sjávarútvegi nam tæplega 40 milljörðum króna á síðasta ári, að því er fram kemur í nýrri greiningu Sjávarklasans. Miðast þessi upphæð þá við starfsemi fyrirtækjanna sem lýtur að sjávartengdum greinum, en um er að ræða Marel, Hampiðjuna, Skagann 3X, Curio og Völku.

Er velta þessara fyrirtækja nú svipuð og öll 60 tæknifyrirtæki sjávarklasans veltu í upphafi þessa áratugar. Var veltuaukning hjá öllum stærstu fyrirtækjunum á síðasta ári og í sumum tilfellum var hún mæld í tugum prósenta. Sum minni fyrirtækin, sem eru með áhugaverðar lausnir hafa einnig vaxið umtalsvert, þó stór hópur hafi staðið í stað.

Samkvæmt athugunum Sjávarklasans eru um 65 tæknifyrirtæki í landinu sem sinna sjávarútvegi og bjóða tækni sem þróuð er af fyrirtækjunum sjálfum. Þau 60 fyrirtæki sem koma á eftir þeim 5 stærstu velta samanlagt um 30 milljörðum.

Minna um stofnun nýrra fyrirtækja

Í greiningunni er bent á að mun minna virðist vera um stofnun nýrra tæknifyrirtækja en áður og telur klasinn skýringuna að stærri fyrirtækin séu að bjóða einstaklingum sem ellegar hefðu farið af stað með eigin starfsemi atvinnutækifæri.

Samt sem áður sé ekki hægt að segja að skortur á nýjum frumkvöðlafyrirtækjum hafi hamlað nýsköpun. Nú sé störfum farið að fjölga hjá fyrirtækjunum sem ekki átti sér stað í fyrstu greiningum klasans, en um er að ræða sjöttu árlegu greiningu klasans á umfangi tæknifyrirtækja.

Hátækni hindrar eftirlíkingar og undirboð

Bendir klasinn á að dregið hafi úr ódýrum eftirlíkingum af íslensku tækninni, en ekki var langt síðan þau stóðu frammi fyrir harði samkeppni og undirboðum erlendis frá.

Með aukinni hátækni í vinnslu hefur að mati klasans reynst erfiðar fyrir fyrirtæki að búa til eftirlíkingar af tækni annarra. Aukin hátækni og hagræðing sem af henni hlaust er einnig helsta ástæða fyrir því að álagning jókst og afkoman batnaði segir jafnframt í greiningunni.

Loks spáir klasinn því að skammt verði að bíða að tæknifyrirtækin fari að búa til meiri verðmæti úr tækniþekkingu Íslendinga heldur en úr þorskflökunum sjálfum.